Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 11 . mál.


11. Frumvarp til laga



um verðbréfaviðskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


    Í lögum þessum merkir:
     Verðbréf:
         
    
    Hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.
         
    
    Framseljanleg skilríki til peningagreiðslu á grundvelli tiltekins verðbréfs eða verðbréfa skv. a-lið (afleidd skuldaskjöl).
     Verðbréfamiðlun: Milliganga sem veitt er gegn endurgjaldi, um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf um slík viðskipti.
     Verðbréfamiðlari: Einstaklingur sem fengið hefur leyfi til verðbréfamiðlunar, sbr. 2. gr., og þeir sem vinna að verðbréfamiðlun undir stjórn og á ábyrgð hans.
     Verðbréfafyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi viðskiptaráðherra, sbr. 7. gr., og annast starfsemi skv. V. kafla laga þessara.
     Fjárvarsla: Þjónusta, veitt samkvæmt sérstökum samningi gegn endurgjaldi sem felur í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í verðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptamanns.
     Almennt útboð: Útboð samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar.
     Viðskiptavaki: Verðbréfafyrirtæki eða annar aðili sem hefur skuldbundið sig formlega til að kaupa og selja fyrir eigin reikning tiltekin verðbréf, í því skyni að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á verðbréfunum, og tilkynnt það opinberlega.
     Sölutrygging: Samningur milli verðbréfafyrirtækis og útgefanda verðbréfa þar sem verðbréfafyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðinn hluta eða öll verðbréf í tilteknu útboði innan fyrir fram ákveðinna tímamarka og á fyrir fram ákveðnu verði.
     Opinber verðbréfamarkaður: Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir erlendis.

II. KAFLI


Leyfi til verðbréfamiðlunar.


2. gr.


    Viðskiptaráðherra veitir leyfi til verðbréfamiðlunar. Leyfi verður einungis veitt einstaklingum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
    Eru búsettir hér á landi.
    Hafa náð tuttugu ára aldri.
    Hafa óflekkað mannorð og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu.
    Hafa sótt námskeið í verðbréfamiðlun og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.
    Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða leggja fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptavinum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum við verðbréfamiðlun. Nánari skilyrði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála skulu ákveðin með reglugerð.
     Umsókn skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

3. gr.


    Þeim einum, sem hlotið hafa leyfi skv. 2. gr., er heimilt að stunda verðbréfamiðlun og nefna sig verðbréfamiðlara, sbr. þó 2. og 3. mgr. 35. gr.
     Héraðsdóms- og hæstaréttarlögmönnum og löggiltum endurskoðendum er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt í einstökum tilvikum að veita viðskiptamönnum sínum þjónustu sem samkvæmt lögum þessum telst til verðbréfamiðlunar, enda sé hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni svo sem búskiptum eða félagsslitum.

4. gr.


     Löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa skal annast endurskoðun hjá verðbréfamiðlara og skulu ákvæði VII. kafla laga þessara gilda um störf hans eftir því sem við getur átt.

5. gr.


    Verðbréfamiðlara er óheimilt að kaupa verðbréf sem honum eru falin til sölu eða að selja eigin verðbréf í rekstri sínum nema um sé að ræða verðbréf skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða sem ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og hefur hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.

6. gr.


    Ákvæði V. kafla taka einnig til verðbréfamiðlara eftir því sem við getur átt.

III. KAFLI


Starfsleyfi verðbréfafyrirtækja.


7. gr.


    Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að hefja starfsemi nema það uppfylli skilyrði laga þessara og hafi fengið starfsleyfi ráðherra. Skilyrði fyrir leyfi til rekstrar verðbréfafyrirtækis eru sem hér segir:
    Fyrirtækið sé hlutafélag með innborguðu hlutafé að fjárhæð að minnsta kosti 40 millj. kr. og eigið fé nemi aldrei lægri fjárhæð en 40 millj. kr. Fjárhæðir þessar skulu bundnar gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við opinbert kaupgengi hennar á útgáfudegi laga þessara.
    Stjórnarmenn skulu vera a.m.k. þrír og fullnægja skilyrðum 1.–3. tölul. 2. gr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir búsetuskilyrði 1. tölul. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
    Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 1.–4. tölul. 2. gr.
    Endurskoðun á reikningum fyrirtækisins skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.
    Fyrirtækið setji tryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir verðbréfafyrirtækisins, staðfesting á fjárhæð innborgaðs hlutafjár og aðrar þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

IV. KAFLI


Synjun leyfa.


8. gr.


    Uppfylli umsækjandi um leyfi til verðbréfamiðlunar skv. 2. gr. eða starfsleyfi verðbréfafyrirtækis skv. 7. gr. ekki skilyrði laga þessara skal umsókn hlutaðeigandi synjað.
     Ráðherra getur synjað umsókn hafi umsækjandi um leyfi til verðbréfamiðlunar eða stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis, að mati ráðherra,
    verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína,
    sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt.
     Áður en ákvörðun er tekin um synjun skv. 2. mgr. skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

9. gr.


    Synjun ráðherra á leyfi skv. 8. gr. skal rökstudd skriflega og send umsækjanda, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

V. KAFLI


Réttindi og skyldur verðbréfafyrirtækja.


10. gr.


    Verðbréfafyrirtækjum er skylt og einum heimilt, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „verðbréfafyrirtæki“ eitt sér eða samtengt öðrum orðum.

11. gr.


    Verðbréfafyrirtæki skv. 7. gr. er, ásamt verðbréfamiðlurum, heimilt að stunda verðbréfamiðlun gegn þóknun. Því er jafnframt heimilt að annast almennt útboð verðbréfa, veita sölutryggingu á verðbréfum, gerast viðskiptavaki, annast fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila og skylda starfsemi. Þá er verðbréfafyrirtæki heimilt að annast umsjá og vörslu verðbréfa verðbréfasjóða að fenginni viðurkenningu bankaeftirlitsins samkvæmt lögum um verðbréfasjóði. Öðrum aðila en verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast þá starfsemi sem að framan greinir nema lög ákveði annað, sbr. þó 35. gr.
     Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast aðra starfsemi en um getur í 1. mgr.

12. gr.


    Heimilt er verðbréfafyrirtæki að starfrækja útibú enda uppfylli daglegur stjórnandi þess skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. 2. gr. Tilkynna skal bankaeftirlitinu fyrir fram um stofnun útibús.

13. gr.


    Verðbréfafyrirtæki skal kappkosta að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskipta- mönnum sínum í starfsemi sinni og ber ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn fyrirtækisins njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Skal verðbréfafyrirtækið, að teknu tilliti til þekkingar viðskiptamanna, veita þeim greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
     Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfafyrirtækja skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna.

14. gr.


    Verðbréfafyrirtæki skal kunngera viðskiptamönnum sínum fyrir fram hvaða þóknun það muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna viðskiptamönnum með nægum fyrirvara.
     Óheimilt er verðbréfafyrirtækjum að hafa samráð um gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og gilda um það ákvæði laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

15. gr.


    Taki verðbréfafyrirtæki að sér þjónustu sem því er heimil samkvæmt lögum þessum, sbr. 11. gr., skal, eftir því sem við á, gerður um það sérstakur samningur milli fyrirtækisins og viðskiptamanns þess þar sem meðal annars skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila.
     Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þess vitneskju um eða ástæðu til að ætla að viðskiptin grundvallist á trúnaðarupplýsingum skv. 2. mgr. 22. gr., sbr. þó 2. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 23. gr.

16. gr.


    Verðbréfafyrirtæki skal halda fjármunum viðskiptamanns tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi og verðbréf í hans eigu varðveitt með tryggilegum hætti.
     Verðbréfafyrirtæki er heimilt að framselja verðbréf í nafni viðskiptamanns síns hafi fyrirtækið fengið til þess skriflegt umboð. Í framsalsáritun ber að geta þess að verðbréf sé framselt samkvæmt varðveittu umboði og ber verðbréfafyrirtæki að varðveita umboð svo lengi sem réttindi eru byggð á verðbréfi sem framselt hefur verið með þessum hætti. Skylt er að láta kaupanda verðbréfs í té samrit umboðsins krefjist hann þess.
     Sá sem veitt hefur verðbréfafyrirtæki umboð skv. 2. mgr. getur ekki beint kröfum að framsalshafa með stoð í heimildarskorti fyrirtækisins nema umboð þess til framsals hafi sýnilega verið ófullnægjandi.
    Framsalsáritun verðbréfafyrirtækis skv. 3. mgr. telst ekki slíta framsalsröð þótt umboð til fyrirtækisins fylgi ekki verðbréfinu.

17. gr.


    Almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skal fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækis, sbr. þó 1. mgr. 11. gr. Útboð verðbréfa skal tilkynna til Verðbréfaþings Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útboðsins í samræmi við reglur sem stjórn Verðbréfaþingsins setur um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs.
     Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um fyrsta söludag einstakra útboða í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
     Verðbréf í almennu útboði skulu skráð á opinberum verðbréfamarkaði samkvæmt reglum sem þar gilda um skráningu verðbréfa.
     Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, sé hann fyrr, skal verðbréfafyrirtæki eða annar aðili, sem hefur milligöngu um almennt útboð, sbr. 1. mgr. 11. gr., tilkynna Verðbréfaþinginu um heildarsölu verðbréfa í útboði á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar útboðs. Verðbréfaþingið skal birta reglulega upplýsingar um verðbréf samkvæmt þessari grein.

18. gr.


    Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að kaupa verðbréf sem fyrirtækinu eru falin til sölu. Eigendum verðbréfafyrirtækis, stjórnendum og öðrum starfsmönnum svo og mökum þeirra er óheimilt að eiga viðskipti með verðbréf við fyrirtækið.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um verðbréf sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og hefur hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.
     Viðskipti skv. 2. mgr. eru bundin því skilyrði að þau séu ekki á neinn hátt óvenjuleg, samþykkt af stjórn verðbréfafyrirtækis og bókuð í gerðabók hennar.
     Kaup eða sala verðbréfa stjórnenda og annarra starfsmanna verðbréfafyrirtækis fyrir eigin reikning skal fara fram fyrir milligöngu þess verðbréfafyrirtækis, sem þeir eru stjórnendur í eða starfa hjá, samkvæmt reglum sem verðbréfafyrirtækið setur og bankaeftirlitið staðfestir.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfafyrirtæki heimilt að kaupa fyrir eigin reikning eða selja úr eigu sinni verðbréf, enda hafi fyrirtækið formlega tekið að sér að vera viðskiptavaki eða sölutryggjandi verðbréfanna og hafi með formlegum hætti kunngert viðskiptavinum sínum það fyrir fram.

19. gr.


    Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgðir vegna verðbréfakaupa eða hafa milligöngu um slík viðskipti.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfafyrirtæki heimilt að veita sölutryggingu á verðbréfum, sbr. 11. gr., þó ekki fyrir hærri fjárhæð en nemur tuttuguföldu eigin fé fyrirtækisins.

20. gr.


    Verðbréfafyrirtæki er því aðeins heimilt að vera meðeigandi eða þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi að slík þátttaka sé í eðlilegum tengslum við starfsemi verðbréfafyrirtækisins og hafi ekki áhrif á óhlutdrægni þess, sbr. 1. mgr. 13. gr.

21. gr.


    Framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema að fengnu leyfi stjórnar þess. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Bankaeftirlitið sker úr um hvort eignarhlutur brjóti í bága við grein þessa og getur veitt undanþágu frá henni mæli sérstakar ástæður með því.
     Um heimildir annarra starfsmanna verðbréfafyrirtækis varðandi þau atriði, sem í 1. mgr. greinir, fer eftir reglum sem stjórn verðbréfafyrirtækis setur og bankaeftirlitið staðfestir.

VI. KAFLI


Misnotkun trúnaðarupplýsinga.


22. gr.


    Ákvæði þessa kafla taka til verðbréfa sem eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og hefur hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal hann hafa hlotið viðurkenningu bankaeftirlitsins.
     Með trúnaðarupplýsingum er átt við upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en eru líkleg til að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfanna ef opinber væru. Upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðnum með almennum og viðurkenndum hætti. Tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan.

23. gr.


    Aðila, sem býr yfir eða hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum skv. 2. mgr. 22. gr. vegna eignaraðildar, aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti á vegum útgefanda verðbréfa eða vegna starfs síns, stöðu eða skyldna, er óheimilt að
    nýta sér upplýsingarnar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfanna sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta,
    láta þriðja aðila upplýsingarnar í té nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
    ráðleggja þriðja aðila á grundvelli upplýsinganna að afla verðbréfa eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með verðbréfin.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti fullvalda ríkis, seðlabanka þess eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu hlutaðeigandi ríkis í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu.

24. gr.


    Öðrum aðilum en um getur í 1. mgr. 23. gr., sem hlotið hafa vitneskju um trúnaðarupplýsingar, er óheimilt að nýta þær með þeim hætti sem þar segir, enda hafi þeir vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

25. gr.


    Ákvæði 23. og 24. gr. ná einnig til lögaðila og taka til þeirra einstaklinga sem taka þátt í ákvörðun um að fara með viðskipti fyrir reikning lögaðilans.

26. gr.


    Útgefendur verðbréfa skulu setja eigin reglur í því skyni að hindra að trúnaðarupplýsingar berist til annarra en þeirra sem þarfnast þeirra vegna starfa sinna.
     Stjórnvöld og aðrir aðilar, sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni, skulu setja sér reglur skv. 1. mgr.

VII. KAFLI


Ársreikningar og endurskoðun.


27. gr.


    Stjórn og framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja ársskýrslu. Ársreikningur og ársskýrsla mynda eina heild. Reikningsár verðbréfafyrirtækis er almanaksárið.
     Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórn og framkvæmdastjóra. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu verðbréfafyrirtækis.
     Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi verðbréfafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.

28. gr.


    Endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi verðbréfafyrirtækis má ekki sitja í stjórn þess eða starfa að öðru leyti í þess þágu en að endurskoðun.
     Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum og fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfafyrirtækis og jafnframt skulu stjórn og starfsmenn þess veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.

29. gr.


    Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Endurskoðandi skal láta í ljós álit sitt á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
     Telji endurskoðandi að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef ársskýrsla hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða er ekki í samræmi við ársreikning skal endurskoðandi vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Endurskoðanda er skylt að veita bankaeftirlitinu allar þær upplýsingar um málefni verðbréfafyrirtækis og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og hann getur látið í té. Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfafyrirtækis varðandi framkvæmd rekstursins eða atriði sem geta veikt fjárhagsstöðu fyrirtækisins skal endurskoðandi þegar gera stjórn fyrirtækisins og bankaeftirlitinu viðvart.

30. gr.


    Endurskoðaður ársreikningur verðbréfafyrirtækis ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun stjórnar og framkvæmdastjóra en eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Jafnframt er verðbréfafyrirtækjum skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

VIII. KAFLI


Eftirlit.


31. gr.


    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem, að mati þess, eru nauðsynlegar vegna eftirlitsins. Að öðru leyti skulu gilda um eftirlitið ákvæði laga um Seðlabanka Íslands eftir því sem við getur átt.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtækis brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.
     Hafi bankaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum VI. kafla laga þessara skal því heimilt að krefja einstaklinga og lögðaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynlegt til rannsóknar málsins.

IX. KAFLI


Afturköllun leyfa.


32. gr.


    Skylt er ráðherra að afturkalla leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi verðbréfafyrirtækis
    uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði laga þessara fyrir leyfisveitingu,
    sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða starfsemi hans slitið.

33. gr.


    Hafi verðbréfamiðlari eða verðbréfafyrirtæki ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim og ekki sinnt kröfum bankaeftirlitsins skv. 2. mgr. 31. gr. er ráðherra heimilt að afturkalla leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtækis á ákvæðum laga þessara er ráðherra heimilt að svipta hlutaðeigandi leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi um stundarsakir. Skal ráðherra þá skipa hlutaðeigandi umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag viðskiptamanna.

34. gr.


    Afturköllun á starfsleyfi verðbréfafyrirtækis eða leyfi til verðbréfamiðlunar skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
     Afturkalli ráðherra starfsleyfi verðbréfafyrirtækis endanlega skal hann skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á fyrirtækinu eða flutning á starfsemi þess til annars verðbréfafyrirtækis.

X. KAFLI


Ýmis ákvæði.


35. gr.


    Hyggist verðbréfamiðlari eða verðbréfafyrirtæki hefja starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna það bankaeftirlitinu og eftirlitsaðila í hlutaðeigandi ríki.
     Leyfi til starfsemi, sem lög þessi taka til, sem veitt hefur verið af lögbærum yfirvöldum í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, gildir einnig hér á landi. Um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi fer samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Um gildi leyfa til starfsemi er lög þessi taka til, sem veitt eru af lögbærum yfirvöldum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, svo og um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi, fer eftir reglum sem ráðherra setur.

36. gr.


    Verðbréfamiðlarar og starfsmenn þeirra, svo og stjórnendur, framkvæmdastjórar og aðrir starfsmenn verðbréfafyrirtækja, eru bundnir þagnarskyldu um öll viðskipti sem þeir hafa milligöngu um og allt það er varðar hagi viðskiptamanna og þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

37. gr.


    Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki.

38. gr.


    Ráðherra getur falið bankaeftirlitinu veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar skv. II. kafla og starfsleyfa verðbréfafyrirtækja skv. III. kafla, afturköllun leyfa skv. IX. kafla, svo og setningu reglna sem ráðherra er falið að setja samkvæmt lögum þessum.

39. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð, þar á meðal um viðurlög í formi dagsekta.

XI. KAFLI


Viðurlög.


40. gr.


    Brot á lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
     Brot gegn ákvæðum VI. kafla varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Jafnframt er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur með broti gegn ákvæðinu.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

XII. KAFLI


Gildistaka og brottfallin lög.


41. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlarar samkvæmt lögum nr. 20/1989, sem eru starfandi við gildistöku laga þessara, skulu hafa lagað starfsemi sína að ákvæðum laganna eigi síðar en einu ári frá gildistöku þeirra. Ráðherra getur þó veitt verðbréfafyrirtækjum lengri frest, þó aldrei lengur en í sex mánuði.
     Þeim sem fengið hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 20/1989 við gildistöku laga þessara er eigi skylt að sækja námskeið skv. 4. tölul. 2. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Viðskiptaráðherra skipaði vinnuhóp 18. nóvember 1991 sem var falið það verkefni að „semja nauðsynleg lagafrumvörp og drög að reglugerðum vegna aðlögunar á íslenskum rétti á sviði lánastofnana og verðbréfaviðskipta að ákvæðum í samningi um Evrópskt efnahagssvæði“. Í vinnuhópinn voru skipaðir Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, formaður, Finnur Sveinbjörnsson, skrifstofustjóri viðskiptaráðuneytis, Tryggvi Axelsson deildarstjóri, viðskiptaráðuneyti, Sveinbjörn Hafliðason forstöðumaður, Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason aðstoðarbankastjóri, Seðlabanka Íslands, og Ólafur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra viðskiptabanka. Starfsmaður og ritari hópsins var Jóhann Albertsson deildarstjóri, bankaeftirliti Seðlabanka Íslands. Tryggvi Axelsson lét af störfum í vinnuhópnum um miðjan apríl 1992. Sæti hans tók Páll Ásgrímsson lögfræðingur, viðskiptaráðuneyti.
     Eiríkur Guðnason skilaði séráliti um 17. gr. frumvarpsins og er það birt sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Löggjöf um verðbréfaviðskipti.
    
Löggjöf um verðbréfaviðskipti er tiltölulega ný hér á landi. Fyrstu lög á þessu sviði voru lög nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun. Þau voru síðar felld úr gildi með núgildandi lögum, nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, sem eru mun ítarlegri en lögin frá 1986 og að ýmsu leyti í samræmi við löggjöf nágrannalanda á þessu sviði. Þó var ljóst að einstök atriði laganna frá 1989 þörfnuðust endurskoðunar að fenginni reynslu af framkvæmd þeirra. Hugmyndir þar að lútandi hafa nýst við aðlögun íslenskrar löggjafar á þessu sviði að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
     Frumvarp þetta er eitt þeirra frumvarpa sem vinnuhópurinn samdi á sviði verðbréfaviðskipta og lánastofnana í samræmi við efni skipunarbréfs. Þrjú þeirra eru á sviði verðbréfaviðskipta en auk þessa frumvarps voru samin frumvörp til laga um verðbréfasjóði og laga um Verðbréfaþing Íslands. Drög að þessum þremur frumvörpum voru kynnt hagsmunaaðilum á verðbréfamarkaði og leitað eftir skriflegum athugasemdum þeirra. Auk þess voru frumvörpin rædd við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði. Ýmsar ábendingar komu fram frá þessum aðilum og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir því sem ástæða þótti til.

Meginefni frumvarpsins.
    
Við samningu frumvarpsins var í fjölmörgum atriðum stuðst við ákvæði núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Einnig var höfð hliðsjón af löggjöf nágrannalanda, einkum danskri og norskri, en löggjöf þessara landa hefur verið aðlöguð reglum Evrópubandalagsins að meira eða minna leyti. Auk þess var höfð hliðsjón af reglum Evrópubandalagsins sem gilda munu innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Í ýmsum atriðum eru ákvæði þessa frumvarps sambærileg við ákvæði frumvarps til laga um verðbréfasjóði sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Þá er rétt að vekja jafnframt athygli á því að frumvarp til laga um Verðbréfaþing Íslands, sem er einnig lagt fram samhliða þessu frumvarpi, hefur að nokkru áhrif á einstök ákvæði frumvarpsins.
    Enda þótt stuðst hafi verið við ákvæði gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði í fjölmörgum atriðum felast engu að síður nokkrar breytingar frá þeim í frumvarpinu. Í I. kafla er einstökum skilgreiningum núgildandi laga breytt og nýjar settar fram. Skilyrðum fyrir veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar og starfsleyfa verðbréfafyrirtækja er breytt nokkuð, sbr. II. og III. kafla. Ákvæði IV. kafla um synjun um leyfi eru ítarlegri en ákvæði gildandi laga og sama á við um V. kafla um réttindi og skyldur verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða. Svonefnd innherjaákvæði eru einnig mun ítarlegri en verið hefur, sbr. VI. kafla, og heimildir bankaeftirlits til að krefjast upplýsinga vegna rannsóknar slíkra mála eru auknar. Ákvæði um afturköllun leyfa skv. IX. kafla eru endurbætt og viðurlög skv. XI. kafla eru hert og mælt fyrir um þyngri viðurlög vegna brota gegn VI. kafla frumvarpsins um misnotkun trúnaðarupplýsinga.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


     Í I. kafla eru skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu. Flest
hugtakanna eru byggð á skilgreiningum sem bæði er að finna í lögum nr. 27/1986, um verðbréfamiðlun, og einnig í lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Önnur hugtök eru hins vegar nýmæli. Frá gildandi lögum hafa hugtökin „verðbréfasjóður“ og „markaðsverðbréf“ verið felld brott.

Um 1. gr.


    Hugtakið „verðbréf“ er skilgreint í tveimur stafliðum í 1. tölul. Fyrri liður skilgreiningarinnar er óbreyttur frá gildandi lögum. Í síðari staflið ákvæðisins er hins vegar að finna viðbót við skilgreiningu núgildandi laga á hugtakinu verðbréf sem er nýmæli. Samkvæmt þessum lið nær hugtakið verðbréf nú einnig til framseljanlegra skilríkja sem veita rétt til peningagreiðslu. Það er þó sett sem skilyrði að skilríkin eigi rót að rekja til eins eða fleiri tiltekinna verðbréfa eins og þau eru skilgreind í fyrri staflið 1. tölul. Þau skilríki, sem um ræðir, hafa verið nefnd afleidd skuldaskjöl, nefnd „derivatives“ á ýmsum erlendum tungumálum. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á þeim skuldaskjölum sem teljast mundu verðbréf samkvæmt þessari skilgreiningu. Dæmi um skuldaskjöl, sem falla mundu undir ákvæðið, eru svonefndar „options“ og „futures“. Að öðru leyti er ákvæðinu ætlað að veita svigrúm á verðbréfamarkaði til að taka upp nýjungar og viðskipti með skuldaskjöl sem ekki eru almennt stunduð hér á landi enn sem komið er.
     Hugtökin „verðbréfamiðlun“ og „verðbréfamiðlari“ eru efnislega óbreytt frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
     „Verðbréfafyrirtæki“ er efnislega skilgreint á svipaðan hátt og samkvæmt gildandi lögum. Þó er nú gert ráð fyrir starfsleyfi í stað rekstrarleyfis í núgildandi lögum. Ekki er lengur talið upp í skilgreiningunni það sem verðbréfafyrirtæki mega gera heldur vísað til þess kafla frumvarpsins sem fjallar um réttindi og skyldur fyrirtækjanna. Samkvæmt frumvarpinu er felld brott heimild verðbréfafyrirtækja til að annast rekstur verðbréfasjóða. Sú breyting er til komin vegna ákvæða í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 85/611 sem er hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Í henni er gert ráð fyrir að félag, sem annast rekstur verðbréfasjóðs, hafi eingöngu slíka starfsemi með höndum. Um slík félög eru sérstök ákvæði í frumvarpi til laga um verðbréfasjóði sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.
    „Fjárvarsla“ hefur ekki áður verið skilgreind sérstaklega í lögum. Höfð var hliðsjón af skilgreiningu norskra laga nr. 61/1985, um verðbréfaviðskipti. Það er skilyrði að þjónusta, sem um ræðir, sé veitt gegn endurgjaldi og að gerður sé um hana sérstakur samningur. Almennt verður að gera ráð fyrir að fjárvarsla verði stunduð með reglulegum hætti og sé ætlað að standa yfir í nokkurn tíma og jafnvel ótímabundið. Það er því mikils um vert fyrir báða aðila fjárvörslu að skýrt sé kveðið á um hvað í henni felst, til að mynda í hvaða verðbréfum skuli fyrst og fremst fjárfest fyrir eigin reikning viðskiptamanns sem alla jafna hefur ekki dagleg afskipti af framkvæmd fjárvörslunnar. Með kröfunni um sérstakan samning er stuðlað að auknu öryggi og trausti í þjónustu af þessu tagi.
     Ákvæðið er einnig í samræmi við meginreglu 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins um skyldu til samningsgerðar.
     Skilgreining á hugtakinu „almennt útboð“ í 6. tölul. er einnig ný í lögum hér á landi en hugtakið hefur verið skilgreint í reglum Seðlabanka Íslands frá 1990 um gerð útboðsgagna vegna almennra útboða markaðsverðbréfa og um fyrsta söludag einstakra verðbréfaflokka skv. 15. gr. laga nr. 20 4. apríl 1989. Í þeim reglum er almennt útboð skilgreint sem útboð markaðsverðbréfa sem beint er til almennings og einnig öll útboð nýs hlutafjár í hlutafélagi þar sem hluthafar eru 50 eða fleiri. Í frumvarpi þessu hefur verið fallið frá að nota hugtakið „markaðsverðbréf“ líkt og gert er í núgildandi lögum. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að við almenn útboð verði fleiri en eitt samkynja verðbréf boðin almenningi með þeim hætti sem lýst er í þessum tölulið. Nánari ákvæði um framkvæmd almennra útboða er að finna í 17. gr. frumvarpsins.
     Í 7. tölul. er hugtakið „viðskiptavaki“ skilgreint með nokkuð öðrum hætti en samkvæmt núgildandi lögum. Breytingin er fólgin í því að í stað „markaðsverðbréfa“ tekur viðskiptavakahlutverk nú til verðbréfa eins og þau eru skilgreind í frumvarpinu. Þá er nú sérstaklega tekið fram í skilgreiningunni að viðskiptavakar skuli skuldbinda sig formlega og opinberlega. Er þetta gert í þeim tilgangi að tryggja betur en verið hefur í framkvæmd núgildandi laga að tilkynningar berist út á verðbréfamarkaðinn. Með formlegri og opinberri tilkynningu er átt við að fram komi í fjölmiðlum, t.d. dagblöðum, að tiltekinn aðili sé viðskiptavaki með tiltekin verðbréf. Jafnframt væri eðlilegt að sams konar tilkynning birtist ef fallið er frá viðskiptavakahlutverki.
     Hugtakið „sölutrygging“ í 8. tölul. hefur ekki verið skilgreint sérstaklega hingað til enda þótt sölutrygging sé veigamikill þáttur í þeirri starfsemi sem verðbréfafyrirtækjum er einum heimilt að annast nema lög ákveði annað. Þótti því eðlilegt að skilgreining þessa hugtaks yrði lögfest.
     Loks er skilgreining á „opinberum verðbréfamarkaði“ í 9. tölul. Hugtakið, sem er nýmæli í löggjöf á þessu sviði, leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði og tekur mið af skilgreiningum Evrópubandalagsins, t.d. í tilskipun 85/611 um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Með hugtakinu er átt við viðurkenndar kauphallir eins og Kauphöll Óslóar, Kauphöll Kaupmannahafnar, Kauphöll Lundúna og Verðbréfaþing Íslands en frumvarp til laga um starfsemi þess er lagt fram samhliða frumvarpi þessu.

Um II. kafla.


     Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um veitingu leyfa til verðbréfamiðlunar. Ákvæði
kaflans eru að mestu efnislega samhljóða ákvæðum II. kafla núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þó verða tilteknar breytingar á skilyrðum fyrir veitingu leyfa sem leiðir af samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Leyfisveitingavaldið er í höndum viðskiptaráðherra en þó er honum veitt heimild til að fela það bankaeftirliti skv. 38. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er efnislega óbreytt ákvæði frá 1. mgr. 3. gr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði enda þótt orðalagi hafi verið breytt. Leyfi til verðbréfamiðlunar verða áfram einungis veitt einstaklingum sem fullnægja þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 1.–5. tölul. málsgreinarinnar. Í 1. tölul. er sett búsetuskilyrði en fallið frá ríkisfangskröfum sem gerðar eru samkvæmt samsvarandi ákvæði gildandi laga. Þessi breyting leiðir af samningi um Evrópska efnahagssvæðið sem heimilar ekki slík skilyrði gagnvart ríkisborgurum ríkja innan svæðisins. 2. og 3. tölul. eru óbreyttir frá gildandi lögum. Kröfur um sérstakt próf skv. 4. tölul. eru óbreyttar frá gildandi lögum að öðru leyti en því að nú er ráðgert að viðskiptaráðherra geti veitt undanþágu frá ákvæðinu mæli sérstakar ástæður með því. Þykir eðlilegt að slík heimild sé fyrir hendi enda geta aðstæður umsækjanda, svo sem námsferill eða óumdeild starfsreynsla, verið með þeim hætti að óeðlilegt væri að honum yrði gert að standast sérstakt próf. Telja verður eðlilegt að þessari undanþáguheimild sé beitt af íhaldssemi og ávallt leitað umsagnar þeirra aðila sem gerst þekkja til þessara mála, svo sem bankaeftirlitsins, prófnefndar verðbréfamiðlara og Samtaka verðbréfafyrirtækja. Skilyrði 5. tölul. eru einnig óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að nú er veitt heimild til að setja fleiri tryggingar en ábyrgðartryggingu viðurkennds vátryggingafélags eða bankatryggingu enda meti viðskiptaráðherra slíkar tryggingar gildar. Samkvæmt þessu gæti t.d. óumdeild veðtrygging komið til greina sem trygging samkvæmt ákvæðinu.
     Ákvæði 2. mgr. mælir fyrir um formskilyrði varðandi umsóknir um leyfi til verðbréfamiðlunar. Krafa um umsögn bankaeftirlitsins áður en leyfi er veitt er nýmæli. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um einkarétt þeirra sem fengið hafa leyfi viðskiptaráðherra til verðbréfamiðlunar skv. 2. gr. frumvarpsins til að stunda verðbréfamiðlun og nefna sig verðbréfamiðlara. Einkaréttur til þessara starfa er viðurkenndur samkvæmt gildandi lögum og er einungis verið að kveða skýrar á um hann í lagatextanum. Að því er varðar einkarétt til að nefna sig verðbréfamiðlara hefur ekki verið kveðið á um slíkt í lögum en þykir eðlilegt. Ákvæðið tekur til þeirra sem fengið hafa leyfi viðskiptaráðherra. Tilvísun til 35. gr. frumvarpsins á við um aðila í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem fengið hafa sams konar leyfi lögbærra yfirvalda í heimalandi sínu, en slík leyfi hafa sjálfkrafa gildi hér á landi samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Jafnframt á tilvísunin við um erlenda leyfishafa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfylla skilyrði viðskiptaráðherra um starfsemi þeirra.
     Ákvæði 2. mgr. er óbreytt frá 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Ákvæði þessarar greinar frumvarpsins eru óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. frumvarpsins er fólgin breyting frá núgildandi lögum. Tilvísun til Verðbréfaþings Íslands fellur brott vegna breytinga samfara sérstöku frumvarpi um Verðbréfaþing Íslands sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Umfjöllun um skilgreiningu á opinberum verðbréfamarkaði er að finna í athugasemdum við 9. tölul. 1. gr. frumvarpsins og vísast til þess sem þar segir. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á „öðrum skipulegum mörkuðum“. Segja má að um sé að ræða neikvæða skilgreiningu á opinberum verðbréfamarkaði, þ.e. verðbréfamarkaði sem ekki telst opinber í skilningi frumvarpsins en uppfyllir að öðru leyti skilyrði frumvarpsins um skipulega og reglulega starfsemi, að hann sé opinn almenningi og að hann hafi hlotið viðurkenningu lögbærra eftirlitsaðila eftir því sem segir í ákvæðinu. Með viðurkenningu bankaeftirlitsins á slíkum markaði er átt við að bankaeftirlitið hafi, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að ósk þeirra sem að markaðnum standa eða annarra, kannað skipulag markaðarins og starfsemi hans og önnur atriði sem eru til þess fallin að skapa traust á hlutaðeigandi markaði. Hin eiginlega viðurkenning fælist síðan í því að bankaeftirlitið ritaði viðkomandi markaði bréf þar sem því væri lýst yfir að bankaeftirlitið teldi markaðinn uppfylla nauðsynleg skilyrði til þess að teljast skipulegur markaður samkvæmt ákvæðum laga eða kunngerði það opinberlega með viðeigandi hætti, t.d. auglýsingu eða fréttatilkynningu. Á Íslandi kynni Opni tilboðsmarkaðurinn, sem starfræktur er í samvinnu verðbréfafyrirtækja, að falla undir þessa skilgreiningu.
     Heimildir til viðskipta samkvæmt ákvæðinu eru ekki einskorðaðar við innlenda verðbréfamarkaði eins og kveðið er á um í 6. gr. núgildandi laga. Leiðir þessi breyting óhjákvæmilega af samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 6. gr.


    Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um réttindi og skyldur verðbréfafyrirtækja. Ákvæði þess kafla taka til verðbréfamiðlara eftir því sem við getur átt. Að öðru leyti þarfnast 6. gr. frumvarpsins ekki skýringa.

Um III. kafla.


     Í III. kafla eru sett skilyrði fyrir veitingu leyfis til reksturs verðbréfafyrirtækis sem er
nefnt starfsleyfi í stað rekstrarleyfis samkvæmt núgildandi lögum. Samkvæmt ákvæðum kaflans verða nokkrar breytingar á skilyrðum til veitingar leyfa, m.a. um lágmark hlutafjár og stjórnarmenn, auk þess sem sett eru ákvæði um form umsókna.

Um 7. gr.


    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
     Í 2. mgr. eru nánar tilgreind skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.
     Samkvæmt 1. tölul. er lágmarksfjárhæð innborgaðs hlutafjár hækkuð úr 20 millj. kr. í 40 millj. kr. og sama á við um eigið fé sem aldrei skal nema lægri fjárhæð. Þá er einnig gerð sú breyting að fjárhæðir þessar miðast við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU í stað lánskjaravísitölu eins og verið hefur. Þessar breytingar eru báðar ákveðnar með hliðsjón af ákvæðum í drögum að tilskipun Evrópubandalagsins um „investment services“ (íslenskt heiti ekki enn fyrirliggjandi) sem enn er ófrágengin. Samkvæmt þeim drögum er gert ráð fyrir lágmarkskröfum að þessu leyti upp á 500 þúsund ECU en ein slík eining samsvarar rösklega 70 íslenskum krónum. Þar sem þessi tilskipun mun taka til verðbréfafyrirtækja þótti rétt að taka þegar tillit til hennar við samningu frumvarps þessa eftir því sem unnt er. Á hinn bóginn kynni að þurfa að endurskoða þessi ákvæði þegar tilskipunin liggur endanlega fyrir.
     Í 2. tölul. 2. mgr. er lágmarksfjöldi stjórnarmanna færður úr fimm í þrjá. Er með því tekið tillit til breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um hlutafélög frá því að lög um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði tóku gildi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, hafa náð 20 ára aldri, hafa óflekkað mannorð og aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Stjórnarmenn, sem eru búsettir í aðildarríkum Evrópska efnahagssvæðisins, eru undanþegnir búsetuskilyrði og leiðir það af samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þá er viðskiptaráðherra heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Ákvæði 3.–5. tölul. 2. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og þarfnast ekki skýringa.
     Í 3. mgr. eru sett formskilyrði fyrir umsókn um starfsleyfi og gögn sem skulu fylgja henni. Eðli máls samkvæmt má ætla að umsóknir verði almennt settar fram skriflega. Engu að síður þykir rétt að taka skýrt fram að svo skuli gert og jafnframt hvaða gögn skuli að lágmarki fylgja umsókn. Slíkt er til hagræðis komi til ágreinings vegna hugsanlegrar synjunar á umsókn um leyfi skv. IV. kafla frumvarpsins. Kröfur um aðrar upplýsingar, sem ráðherra ákveður, skulu vera almennar og gilda fyrir alla umsækjendur.

Um IV. kafla.


     Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um synjun á umsóknum um starfsleyfi verðbréfafyrirtækja og málsmeðferð í slíkum tilvikum. Ákvæði kaflans eru nýmæli frá gildandi löggjöf og var m.a. höfð hliðsjón af ákvæðum danskra laga um Kauphöll Kaupmannahafnar frá 1992. Samsvarandi ákvæði er að finna í frumvarpi til laga um verðbréfasjóði sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Þykir eðlilegt að til viðbótar kröfum um starfsleyfi sé kveðið á með skýrum hætti um þau tilvik sem geta valdið synjun umsókna um starfsleyfi. Ákvæði af þessu tagi eru til hagsbóta fyrir verðbréfamarkaðinn í heild og ekki síður einstaka umsækjendur.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er tekið fram með skýrum hætti að uppfylli umsækjandi um starfsleyfi ekki skilyrði til veitingar leyfis skuli umsókn synjað. Skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eru hlutlæg og veita ekki svigrúm til mats á huglægum forsendum sem leitt gætu til undanþágu í einstökum tilvikum. Ákvæðið er ekki síður mikilvægt með tilliti til þess að leyfi, sem veitt hefur verið hér á landi, öðlast sjálfkrafa gildi í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því verður að vera tryggt að leyfishafar hafi frá upphafi uppfyllt lögbundnar kröfur.
     Samkvæmt 2. mgr. er viðskiptaráðherra veitt heimild til að synja verðbréfafyrirtæki um starfsleyfi séu aðstæður með þeim hætti sem ákvæðið greinir enda þótt umsækjandi uppfylli skilyrði frumvarpsins að öðru leyti. Samsvarandi ákvæði er að finna í dönskum lögum um Kauphöll Kaupmannahafnar frá 1992 og einnig í frumvarpi til laga um verðbréfasjóði sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu og var þar tekið mið af tilskipun Evrópubandalagsins nr. 85/611 um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.
     Í 1. tölul. 2. mgr. er heimildin bundin við að hlutaðeigandi hafi ekki gerst sekir um og hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að þeir misnoti aðstöðu sína í störfum sínum fyrir verðbréfafyrirtæki. Ekki er unnt að gefa tæmandi talningu á þeim tilvikum sem fallið geta undir ákvæðið en almennt yrði að vera um að ræða alvarleg fjármálaafbrot samkvæmt almennum hegningarlögum, svo sem fjársvik eða fjárdrátt, eða brot gegn sérrefsilögum. Sé svo ástatt um þá aðila sem ákvæðið tekur til er ekki talið eðlilegt að þeim sé heimilað að hafa með höndum stjórn fyrirtækja á verðbréfamarkaði.
     Í 2. tölul. er veitt heimild til að synja um starfsleyfi hafi þeir sem þessi grein fjallar um sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir muni ekki sinna starfi sínu á þann hátt sem krefjast verður af aðilum á verðbréfamarkaði. Á sama hátt og segir um 1. tölul. er ekki unnt að gefa tæmandi talningu á þeim aðstæðum sem réttlætt geta synjun á grundvelli þessa töluliðar. Heimild til synjunar er hér ekki bundin við að brotið hafi verið gegn lögum eða að viðkomandi hafi hlotið dóm fyrir umrædda háttsemi. Áhersla er lögð á það hvort ferill viðkomandi eða fyrri störf rýri svo álit hans að ekki teljist rétt með tilliti til hagsmuna verðbréfamarkaðarins í heild eða almennings að hann hafi með höndum ábyrgðarstörf á verðbréfamarkaði. Almennt yrði þó að vera um að ræða alvarlegar ávirðingar eða óæskilega háttsemi á fjármálasviði.
     Samkvæmt greininni er það mat viðskiptaráðherra hvort atvik séu með þeim hætti að réttlætanlegt sé að synja umsókn um starfsleyfi á grundvelli ákvæðisins. Almennt er ekki ætlast til að synjun sé beitt, nema í alvarlegum tilvikum. Samkvæmt 3. mgr. er viðskiptaráðherra gert að leita umsagnar bankaeftirlitsins áður en til synjunar kemur. Enda þótt ráðherra sé ekki bundinn af umsögn bankaeftirlitsins verður að ætla að síður komi til synjunar telji bankaeftirlitið ekki ástæðu til hennar.
     Með þessari grein er leitast við að tryggja heiðarleika á verðbréfamarkaði og það traust sem ætlast verður til að almenningur geti borið til markaðarins og þeirra sem þar starfa.

Um 9. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er viðskiptaráðherra gert skylt að rökstyðja synjun skv. 8. gr. og senda umsækjanda. Almennt hlýtur synjun að varða umsækjanda miklu og því er talið eðlilegt að hún sé rökstudd þannig að umsækjandi geti metið ástæður hennar sjálfstætt og tekið ákvörðun um hvort hann uni synjun eða ákveði að leita réttar síns fyrir dómstólum samkvæmt almennum reglum.
     Þá má einnig ætla að það skipti umsækjanda miklu að ákvörðun ráðherra um hvort leyfi skuli veitt eða ekki liggi fyrir innan hæfilegs frests. Því er kveðið á um að ákvörðun ráðherra skuli að jafnaði liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum og í síðasta lagi sex mánuðum frá því að honum barst fullbúin umsókn. Þykir eðlilegt að miða frestinn við þann tíma sem umsókn er fullbúin þar sem það kann að taka umsækjanda nokkurn tíma að bæta úr ef umsókn er ófullnægjandi þegar hún er upphaflega lögð fram. Ráðherra metur hvort gögn séu fullnægjandi en hann ákveður hvaða gögnum er óskað eftir með umsókn, sbr. 2. og 7. gr. frumvarpsins.

Um V. kafla.


     Í V. kafla er fjallað um réttindi og skyldur verðbréfafyrirtækja og taka ákvæði hans
einnig til verðbréfamiðlara skv. II. kafla frumvarpsins eins og við getur átt, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í V. kafla eru ítarlegri ákvæði um réttindi og skyldur þessara aðila en verið hefur samkvæmt núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði frá 1989. Við samningu kaflans var m.a. höfð hliðsjón af gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, dönskum lögum og einnig að hluta norskum lögum.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 11. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði er verðbréfafyrirtækjum skylt að geta rekstrarleyfis viðskiptaráðherra með sérstökum hætti. Ekki er beinlínis sagt að þeim sé það jafnframt einum heimilt. Úr þessu er bætt með 10. gr. frumvarpsins. Er með því dregið úr hættu á ruglingi milli verðbréfafyrirtækja og annarra fyrirtækja sem starfa kunna á fjármagnsmarkaði eða á öðrum sviðum og einnig spornað við því að aðilar, sem ekki hafa starfsleyfi, villi á sér heimildir. Sams konar ákvæði er í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og hefur þeim verið beitt í nokkrum tilvikum. Þá eru einnig sams konar ákvæði í dönskum lögum.

Um 11. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er efnislega óbreytt frá 1. og 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þó er ekki notað hugtakið „markaðsverðbréf“ varðandi sölutryggingu. Þá er einnig felld brott heimild verðbréfafyrirtækja til að annast rekstur verðbréfasjóða en verðbréfafyrirtækjum hins vegar heimilað að annast umsjá og varðveislu eigna verðbréfasjóða. Þessar breytingar leiðir af samræmingu lagaákvæða um rekstur verðbréfasjóða við tilskipun Evrópubandalagsins á þessu sviði og er nánar vikið að þessu atriði í athugasemdum við frumvarp til laga um verðbréfasjóði sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að öðrum aðilum en verðbréfafyrirtækjum sé óheimilt að annast þá starfsemi sem þar getur nema lög ákveði annað. Þannig verður væntanlega kveðið á um í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, fjárfestingarlánasjóði og aðrar lánastofnanir hvaða starfsemi á verðbréfamarkaði þessum stofnunum er heimil. Þá felst í tilvísun ákvæðisins til 35. gr. frumvarpsins fyrirvari um gildi leyfa sem veitt hafa verið af lögbærum yfirvöldum ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og eftir atvikum af lögbærum yfirvöldum annarra ríkja.
     Ákvæði 2. mgr. er óbreytt frá 3. mgr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að teknu tilliti til breytinga sem getið var í athugasemdum við 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Ákvæði 12. gr. er efnislega óbreytt frá 6. mgr. 11. gr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 13. gr.


    Í upphafi 1. mgr. er sett sú meginregla að verðbréfafyrirtæki skuli kappkosta að gæta óhlutdrægni í störfum sínum. Er með þessu lögð á það áhersla að ábyrgð þessara aðila tekur til verðbréfamarkaðarins í heild og hvers viðskiptamanns um sig. Er um að ræða nýmæli og er stuðst við ákvæði norskra laga um það sem þar er nefnt „god meglerskikk“ og er eins konar almennur mælikvarði á það hvernig góðum og gegnum verðbréfamiðlara ber að rækja störf sín. Mat á því hvort þessara sjónarmiða hafi verið gætt í starfsemi verðbréfafyrirtækja eða verðbréfamiðlara fer eftir atvikum hverju sinni. Síðari hluti 1. mgr. er eðlilegur hluti af þessari almennu skyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlara og er efnislega samhljóða 4. gr. núgildandi laga. Verðbréfamiðlara ber samkvæmt ákvæðinu að veita viðskiptamanni allar þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að geta metið sjálfstætt mismunandi fjárfestingarkosti með tilliti til ávöxtunar, áhættu og annarra atriða sem máli skipta.
     Í 2. mgr. er ákvæði um upplýsingaskyldu verðbréfafyrirtækja sem er efnislega samhljóða 14. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að öðru leyti en því að ekki er kveðið á um að Verðlagsstofnun setji reglur um þessi atriði að fengnum tillögum bankaeftirlits. Bankaeftirlitinu ber hins vegar að kveða á um þetta í krafti almenns eftirlitshlutverks síns og er talið heppilegra að slíkar ákvarðanir séu í höndum þess aðila sem fer með eftirlit með starfseminni.

Um 14. gr.


    Þetta ákvæði er efnislega óbreytt frá 17. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að bent skal á að nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra samkeppnislaga þannig að lagatilvitnun í 2. mgr. gæti breyst.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir þeirri almennu reglu að gerður skuli samningur milli verðbréfafyrirtækis og viðskiptamanna þess um þjónustu sem fyrirtækið tekur að sér fyrir viðskiptamenn sína. Ætlunin með þessu er að stuðla að auknu öryggi í starfsemi verðbréfafyrirtækjanna og koma í veg fyrir ágreining í samskiptum þeirra og viðskiptamanna sem dæmi eru um að komið hafi upp. Almennt ber að líta svo á að því viðameiri, lengri eða reglulegri sem samskipti fyrirtækis og viðskiptamanns eru þeim mun meiri ástæða sé til samningsgerðar samkvæmt ákvæðinu. Á þetta t.d. við um fjárvörslu og sölutryggingar. Hins vegar er ekki raunhæft að ætlast til sérstakrar samningsgerðar um einstök tilfallandi samskipti fyrirtækis og viðskiptamanna, t.d. milligöngu um kaup eða sölu einstakra verðbréfa.
     Í 2. mgr. er tekið fram að verðbréfafyrirtækjum sé óheimilt að annast milligöngu um viðskipti sem starfmenn þess vita eða hafa ástæðu til að ætla að grundvallist á trúnaðarupplýsingum. Með viðskiptum á grundvelli trúnaðarupplýsinga er átt við það sem nefnt hefur verið innherjaviðskipti og eru lýst ólögmæt í gildandi lögum. Um þau er nánar fjallað í VI. kafla frumvarpsins. Þykir eðlilegt að taka þetta bann sérstaklega fram enda þótt almennt sé gert ráð fyrir að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfamiðlarar aðhafist ekkert í störfum sínum sem andstætt er lögum eða að öðru leyti ósamrýmanlegt eðlilegum starfsskyldum þessara aðila, sbr. athugasemdir við 13. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru óbreytt frá 5. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að því undanskildu að 2. mgr. gildandi ákvæðis er felld brott enda er hugtakið „markaðsverðbréf“ ekki notað í frumvarpinu.

Um 17. gr.


    Í þessari grein er fjallað um almennt útboð verðbréfa. Er ákvæðið nokkuð breytt frá 15. gr. núgildandi laga sem að hluta má rekja til frumvarps til laga um Verðbréfaþing Íslands sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
     Í 1. mgr. eru gerðar þær breytingar frá gildandi lögum að fallið er frá notkun hugtaksins „markaðsverðbréf“ og tekur ákvæðið nú til allra verðbréfa sem boðin eru almenningi með almennu útboði. Þá er felld brott heimild hlutafélaga til að annast sjálf útboð. Að fenginni reynslu þykir rétt að sú heimild falli brott og í stað hennar komi skýrar reglur sem gildi um öll almenn útboð. Meginreglan samkvæmt ákvæðinu verður sú að almennt útboð fari fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja nema lög ákveði annað, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Loks er tilkynningarskylda um fyrirhuguð útboð verðbréfa færð frá Seðlabanka Íslands til Verðbréfaþings Íslands sem setur nánari reglur í þessu sambandi. Er þessi breyting í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um Verðbréfaþing Íslands sem gerir ráð fyrir auknu vægi og sjálfstæði þingsins.
     Samkvæmt 2. mgr. er Seðlabanka Íslands veitt sama heimild til að setja reglur um fyrsta söludag einstakra útboða og bankinn hefur skv. 1. mgr. 15. gr. núgildandi laga. Þó er ekki gert ráð fyrir að bankinn setji með þessum reglum ákvæði um gerð útboðsgagna en slík heimild felst efnislega í 3. mgr. 17. gr. frumvarpsins og er flutt til viðkomandi verðbréfamarkaðar samkvæmt því ákvæði. Þessi breyting er í samræmi við það sem sagði um Verðbréfaþing Íslands í athugasemdum við 1. mgr.
     Með 3. mgr. er gerð sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að öll verðbréf, sem boðin eru almenningi með almennu útboði, skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Ákvæðinu er m.a. ætlað að stuðla að virkari viðskiptum á opinberum verðbréfamarkaði hér á landi en þróun þeirra hefur verið hægari en vonast hafði verið til. Þessi skipan er í samræmi við tillögur ráðgjafarfyrirtækisins Enskilda Securities sem tvívegis hefur unnið að úttekt á verðbréfamarkaði hérlendis. Þá er ákvæðinu einnig ætlað að auka öryggi einstakra fjárfesta. Er talið eðlilegt að aðilar, sem veittur er aðgangur að almenningi til að fjármagna starfsemi sína, virði jafnframt þann rétt almennings að eiga greiðan aðgang að ítarlegum upplýsingum um viðkomandi verðbréf og útgefendur þeirra. Slík skipan er ein af frumforsendum virks verðbréfamarkaðar. Ekki er um skyldu til skráningar allra verðbréfa að ræða samkvæmt ákvæðinu heldur einungis þeirra sem boðin eru almenningi með almennu útboði. Eftir sem áður gætu útgefendur verðbréfa leitað fjármögnunar hjá þrengri hópi aðila án þess að um almennt útboð væri að ræða. Ekki er skylt að skrá slík verðbréf á opinberum verðbréfamarkaði. Um nánari útfærslu á skráningu verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði færi eftir reglum sem settar yrðu af viðkomandi verðbréfamarkaði. Þar á meðal væru reglur um gerð útboðsgagna sem settar yrðu af stjórn Verðbréfaþings Íslands, en frumvarp til laga um starfsemi þess er lagt fram samhliða þessu frumvarpi.
     Ákvæði 4. mgr. eru efnislega óbreytt frá 2. mgr. 15. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að tilkynningarskylda flyst frá Seðlabanka Íslands til Verðbréfaþingsins og getur nú náð til fleiri aðila sem leiðir af 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins.
     Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 18. gr.


    Með 1. mgr. er stefnt að því að sporna við hagsmunaárekstrum eða misnotkun á aðstöðu í starfsemi verðbréfafyrirtækja. Ákvæðið er efnislega í samræmi við 26. gr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði að teknu tilliti til breyttrar uppbyggingar löggjafar á þessu sviði. Ákvæðið er einnig eðlilegt í samhengi við almenna reglu 13. gr. frumvarpsins um óhlutdrægni verðbréfafyrirtækja í starfsemi sinni. Undantekning er gerð samkvæmt greininni varðandi viðskipti aðila með verðbréf sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði. Almennt eru minni líkur á því að þær aðstæður, sem ákvæðinu er ætlað að sporna við, komi upp varðandi slík verðbréf.
     Samkvæmt 2. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 1. mgr. eigi samkvæmt greininni ekki við varðandi viðskipti aðila með verðbréf sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði. Almennt eru minni líkur á því að þær aðstæður, sem ákvæði 1. mgr. er ætlað að sporna við, eigi við um viðskipti með slík verðbréf.
     Ákvæði 3. mgr. er nýmæli hér á landi en sams konar ákvæði eru í norskum og dönskum lögum á þessu sviði. Þykir eðlilegt að viðskipti þeirra sem ákvæðið tekur til fari fram á vegum þess verðbréfafyrirtækis sem viðkomandi starfa hjá og hefur þessi skipan verið talin eðlileg af þeim sem starfa á verðbréfamarkaði hér á landi. Má ætla að ákvæðið veiti viðkomandi visst aðhald og stuðli að því að um eðlileg viðskipti sé að ræða, enda er gert ráð fyrir að settar séu innri reglur í verðbréfafyrirtækinu um þessi atriði sem staðfestar skulu af bankaeftirlitinu. Þá má einnig ætla að ákvæðið geti stuðlað að greiðari athugun á hugsanlegri misnotkun trúnaðarupplýsinga skv. V. kafla frumvarpsins. Ákvæðið á við um öll verðbréfaviðskipti þeirra aðila sem þar eru tilgreindir, þar á meðal viðskipti skv. 2. mgr.
     Í 4. mgr. er ákvæði sem er efnislega óbreytt frá 26. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og getur gegnt veigamiklu hlutverki við athuganir á meintum brotum í starfsemi verðbréfafyrirtækis.
     Með 5. mgr. er veitt eðlileg undanþága vegna þeirra aðstæðna sem þar er lýst enda er þar um að ræða starfsemi sem verðbréfafyrirtækjum er heimilt að annast skv. 11. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði gildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Um framkvæmd ákvæðisins vísast til athugasemda við skilgreiningu á hugtakinu „viðskiptavaki“ í 1. gr. frumvarpsins, eftir því sem við á.

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. er lagt bann við því að verðbréfafyrirtæki veiti lán eða gangi í ábyrgðir vegna verðbréfakaupa. Sams konar ákvæði er í norskum lögum. Ákvæðinu, sem er nýjung að því er verðbréfafyrirtæki varðar, er ætlað að stuðla að óhlutdrægni og óháðri stöðu verðbréfafyrirtækja samkvæmt meginreglu 13. gr. frumvarpsins. Megintilgangur ákvæðisins er fyrst og fremst sá að verðbréfafyrirtæki örvi ekki sölu verðbréfa með því að bjóðast til að lána kaupanda andvirði bréfanna að fullu eða hluta til skemmri eða lengri tíma. Í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði er að finna hliðstætt bann við lánveitingum verðbréfasjóða.
     Eðlilegt þótti að taka sérstaklega fram í 2. mgr. að 1. mgr. hefði ekki áhrif á heimildir verðbréfafyrirtækja til að annast sölutryggingar á verðbréfum, enda má segja að í sölutryggingu felist ákveðin ábyrgð á sölu verðbréfa. Takmörkun á fjárhæð sölutryggingar er í samræmi við ákvæði gildandi laga.

Um 20. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er nýmæli í löggjöf um verðbréfaviðskipti hér á landi en sams konar ákvæði er í norskum lögum og samkvæmt dönskum lögum er verðbréfafyrirtækjum bannað að eiga dótturfélög. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að óhlutdrægni og óháðri stöðu verðbréfafyrirtækisins eins og orðalag þess ber með sér. Hvort um er að ræða starfsemi í eðlilegum tengslum við almenna starfsemi verðbréfafyrirtækisins samkvæmt frumvarpinu verður að meta í hverju einstöku tilviki.

Um 21. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er aukið og endurbætt frá samsvarandi ákvæði 13. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og nær nú einnig til þátttöku í atvinnurekstri og eignarhluta í fyrirtækjum. Var m.a. höfð hliðsjón af ákvæðum laga um viðskiptabanka. Ákvæðinu er ætlað að tryggja óhlutdrægni framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækis og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
     Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að verðbréfafyrirtæki setji sérstakar reglur um heimildir annarra starfsmanna í þeim efnum sem 1. mgr. tekur til. Ekki er mælt fyrir um efnisinnihald slíkra reglna en það lagt í vald hvers fyrirtækis. Bankaeftirlitið skal hins vegar staðfesta reglurnar og gæti hafnað þeim teldust þær ekki fullnægjandi að mati þess.

Um VI. kafla.


     Í þessum kafla er fjallað mun ítarlegar og nákvæmar en áður um misnotkun trúnaðarupplýsinga en í núgildandi lögum er slíkt nefnt innherjaviðskipti. Var höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópubandalagsins um slík viðskipti og einnig ákvæðum danskra laga.

Um 22. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að ákvæði kaflans taki til verðbréfa sem eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði sem starfar reglulega og er opinn almenningi. Ákvæðið er ekki takmarkað við markaði tiltekinna ríkja. Hins vegar þurfa svonefndir „aðrir skipulegir markaðir“ innan Evrópska efnahagssvæðisins að hafa hlotið viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Sé markaður utan svæðisins þarf viðurkenningu bankaeftirlitsins og er þá ekki greint milli opinbers eða annars skipulegs markaðar. Er ákvæðið í samræmi við ákvæði danskra laga að þessu leyti. Afmörkunin er eðlileg enda væri óframkvæmanlegt að hafa eftirlit með slíkum viðskiptum utan markaða af þessu tagi.
     Í 2. mgr. er nánar skilgreint hvað átt er við með hugtakinu trúnaðarupplýsingar. Slíka skilgreiningu er ekki að finna í gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem fyrst og fremst skilgreina persónur sem teljast innherjar í skilningi laganna. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. frumvarpsins eru trúnaðarupplýsingar upplýsingar um útgefanda verðbréfa, upplýsingar um verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem eru líkleg til að hafa áhrif á markaðsverð bréfanna ef opinberar væru. Samkvæmt þessu er ekki lengur gerð krafa um að upplýsingarnar hafi veruleg áhrif á markaðsverðið.
     Í ákvæðinu er veitt almenn leiðbeining um það hvenær upplýsingar teljast opinberar og þar með ekki lengur trúnaðarupplýsingar. Er sérstaklega tekið fram að tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands teljist opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan. Að öðru leyti er miðað við það að upplýsingum hafi verið miðlað til verðbréfamarkaðarins í heild með viðurkenndum hætti. Ekki er unnt að gefa nákvæma skilgreiningu á hvenær því skilyrði telst fullnægt og verður að meta hvert tilvik sjálfstætt. Aðilar geta fengið upplýsingar af þessu tagi með ýmsum hætti, t.d. í fjölmiðlum, fagtímaritum eða samkvæmt opinberum gögnum sem almenningur á aðgang að. Ýmis markatilvik geta því komið til athugunar og er þá m.a. rétt að kanna hvort vitneskja viðkomandi byggist eingöngu á einhverjum slíkum almennum eða birtum upplýsingum eða hvort tengsl hans við þann sem býr yfir trúnaðarupplýsingum eru með þeim hætti að líklegt sé að vitneskja hafi borist þaðan. Þá getur skipt máli hvort um er að ræða aðila skv. 23. gr. frumvarpsins sem mætti nefna fruminnherja eða aðila skv. 24. gr. þess.

Um 23. gr.


    Í þessu ákvæði er sérstaklega fjallað um þá aðila sem búa yfir eða hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum vegna aðstæðna sem þeir eru í gagnvart útgefanda verðbréfa eða öðrum.
     Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. er þeim sem ákvæðið tekur til óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfanna sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta. Með orðalaginu beint eða óbeint er átt við að viðkomandi, eða einhver fyrir hans hönd, nýti sér trúnaðarupplýsingar sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta. Með orðalaginu að afla eða ráðstafa er átt við hvers konar athafnir sem miða að þessu en ekki einungis bein kaup eða sölu. Loks tekur ákvæðið til þess að um hagsbætur sé að ræða og er með því átt við beinan hagnað eða það að forðast fjárhagslegt tjón.
     Í 2. tölul. er lagt bann við að láta þriðja aðila trúnaðarupplýsingar í té. Þetta á þó ekki við séu upplýsingarnar veittar í eðlilegu sambandi við aðstæður sem nefndar eru í þessum tölulið. Ýmis tilvik geta verið fyrir hendi sem gera þeim sem býr yfir trúnaðarupplýsingum skylt að láta öðrum þær í té og verður að meta aðstæður sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig. Útgefendur gætu t.d. veitt viðskiptabönkum sínum eða verðbréfafyrirtækjum, sem starfa í þeirra þágu, upplýsingar, enda sé þessum aðilum þörf á að fá slíka vitneskju vegna starfa sinna fyrir útgefanda verðbréfanna. Upplýsingar verðbréfamiðlara til viðskiptamanna sinna eru ekki undanskildar samkvæmt ákvæðinu. Þó verður að ætla að verðbréfamiðlurum eða verðbréfafyrirtækjum væri heimilt að stunda venjulega og eðlilega starfsemi sína, t.d. sem viðskiptavakar, þrátt fyrir fyrirliggjandi trúnaðarupplýsingar um verðbréf. Einnig hér yrði að meta hvert tilvik sérstaklega með tilliti til aðstæðna og gætu t.d. óvenjuumfangsmikil viðskipti með verðbréf á ákveðnu tímabili verið vísbending um hugsanleg brot.
     Ákvæði 3. tölul. er í eðlilegu samhengi við fyrri tölulið ákvæðisins og einnig ákvæði 24. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast þessi töluliður ekki skýringa.
     Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins nr. 89/592 og dönsk lagaákvæði um misnotkun trúnaðarupplýsinga. Það á einungis við í þeim tilvikum þar sem viðskipti þessara aðila eru liður í almennri stefnu ríkis í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Að öðru leyti ættu ákvæði V. kafla frumvarpsins við um viðskipti þessara stofnana.

Um 24. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins nr. 89/592. Ákvæðið er einnig efnislega í samræmi við ákvæði 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem nær til sérhvers sem býr yfir trúnaðarupplýsingum. Þó er nú gerð sú krafa að þriðji aðili hafi vitað eða mátt vita að um þess konar upplýsingar væri að ræða. Skiptir þá ekki máli með hvaða hætti hann fékk vitneskju um trúnaðarupplýsingar. Nýti þriðji aðili sér hins vegar upplýsingarnar með einhverjum þeim hætti sem fjallað er um í 23. gr. gerist hann brotlegur.

Um 25. gr.


    Ákvæði 25. gr. er efnislega óbreytt frá gildandi lögum að því leyti að það tekur til lögaðila. Þó er gerð sú breyting að tilgreindir eru þeir einstaklingar sem taka þátt í ákvörðun um tiltekin viðskipti fyrir reikning lögaðilans. Er þetta í samræmi við tilskipun Evrópubandalagsins nr. 89/592. Ákvæðið ber að skilja þannig að til beitingar viðurlaga geti komið bæði gagnvart lögaðila og viðkomandi einstaklingum.

Um 26. gr.


    Ákvæði þessarar greinar skylda útgefendur verðbréfa, stjórnvöld og aðra aðila, sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni, til að setja sérstakar reglur til að hindra að trúnaðarupplýsingar berist til annarra en þeirra sem þarfnast þeirra vegna starfa sinna hjá eða fyrir hlutaðeigandi. Á erlendum málum hefur þetta verið nefnt „Chinese wall“, þ.e. Kínamúr. Ákvæðið er nýmæli í íslenskri löggjöf. Ekki eru taldir upp þeir aðilar sem það tekur til en sem dæmi mætti nefna verðbréfafyrirtæki, viðskiptabanka og sparisjóði, opinbera eftirlitsaðila eins og bankaeftirlit, lögmenn og endurskoðendur. Ekki er heldur unnt að setja ákvæði um efnisinnihald slíkra reglna, enda fer það m.a. eftir skipulagi, uppbyggingu og stærð hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar. Sams konar ákvæði eru í dönskum lögum.

Um VII. kafla.


     Í VII. kafla frumvarpsins er fjallað um ársreikning og endurskoðun hjá verðbréfafyrirtækjum. Ákvæði kaflans eru að efni til byggð á hliðstæðum ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 32 frá 1978, með síðari breytingum, gildandi ákvæðum í reglum Evrópubandalagsins, svo og dönskum lögum um þetta efni. Einstakar greinar kaflans skýra sig sjálfar að efni til.

Um VIII. kafla.


     Þessi kafli fjallar um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með starfsemi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlara.

Um 31. gr.


    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru efnislega óbreytt frá 1. mgr. 34. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir eftirliti með starfsemi verðbréfasjóða í 1. mgr. en kveðið á um það í sérstöku frumvarpi um starfsemi þeirra. Þá er ekki fjallað um afturköllun rekstrarleyfis í 2. mgr., enda er fjallað ítarlega um afturköllun leyfa í IX. kafla frumvarpsins.
     Í 3. mgr. er að finna nýtt ákvæði sem veitir bankaeftirliti rúmar heimildir til aðgangs að upplýsingum og gögnum fleiri aðila en nú er hafi það rökstuddan grun um brot gegn ákvæðum frumvarpsins um misnotkun trúnaðarupplýsinga. Þykir nauðsynlegt og eðlilegt að rýmka heimildir bankaeftirlitsins í þessum tilvikum. Rannsókn mála af þessu tagi er afar erfið, t.d. með tilliti til sönnunarfærslu, og ekki er ávallt við því að búast að verðbréfamiðlarar eða verðbréfafyrirtæki búi yfir vitneskju um slík brot eða viðskiptin fari fram fyrir milligöngu þeirra. Án víðtækrar heimildar er dregið úr möguleikum til að sporna við brotum af þessu tagi sem almennt eru talin með skaðlegri brotum á verðbréfamarkaði. Ákvæðið er í samræmi við meginreglu tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 89/592 um að eftirlitsaðila skuli tryggðar nægar heimildir til eftirlits með viðskiptum af þessu tagi.

Um IX. kafla.


     Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað sérstaklega um afturköllun leyfa til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfa verðbréfafyrirtækja. Eru ákvæði kaflans mun ítarlegri en ákvæði gildandi laga bæði að því er varðar heimildir og skyldu til afturköllunar og málsmeðferð í slíkum tilvikum. Höfð var hliðsjón af ákvæðum danskra laga og einnig eru í kaflanum óbreytt ákvæði frá gildandi lögum.

Um 32. gr.


    Ákvæðið mælir fyrir um skyldu til afturköllunar leyfa og er nýmæli frá gildandi lögum sem ekki hafa bein ákvæði um þetta atriði.
     Með 1. tölul. greinarinnar er lögð áhersla á að ávallt þurfi að fullnægja skilyrðum til að öðlast leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi verðbréfafyrirtækja en ekki nægilegt að þeim sé fullnægt á þeim tíma sem sótt er um leyfi. Auk afturköllunar vegna þess að formskilyrðum 2. eða 7. gr. frumvarpsins er ekki lengur fullnægt gæti komið til afturköllunar væru aðstæður með þeim hætti að 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins ætti við um leyfishafa. Væri óeðlilegt að viðkomandi héldi starfsleyfi sem hann hefði e.t.v. ekki hlotið í upphafi vegna þeirra tilvika sem um ræðir. Enda þótt þess sé ekki sérstaklega getið í ákvæðinu yrði viðkomandi væntanlega veittur tiltekinn frestur til úrbóta samkvæmt meginreglu 2. mgr. 31. gr. frumvarpsins áður en til afturköllunar kæmi.
     Séu aðstæður með þeim hætti sem segir í 2. tölul. er eðlilegt að leyfi séu afturkölluð. Eðli máls samkvæmt verður ekki um fresti til úrbóta að ræða í þessum tilvikum. Að því er varðar gjaldþrot sjálfstætt starfandi verðbréfamiðlara færi afturköllun þó fram á grundvelli 1. tölul. ákvæðisins þar sem um formskilyrði er að ræða skv. 2. gr. frumvarpsins.

Um 33. gr.


    Hér er um heimild viðskiptaráðherra til afturköllunar að ræða.
     Ákvæði 1. mgr. er efnislega samsvarandi lokamálslið 2. mgr. 34. gr. núgildandi laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þó eru að vissu leyti gerðar strangari kröfur en samkvæmt gildandi lögum þar sem um þarf að vera að ræða ítrekuð eða alvarleg brot og að kröfum bankaeftirlitsins um úrbætur hafi ekki verið sinnt. Er þetta eðlilegt enda verður afturköllun að teljast viðurhlutamikil athöfn sem snertir ríka hagsmuni leyfishafa og almennings. Með sama hætti yrðu atvik, sem talin eru leiða til þess að starfsemi leyfishafa sé metin óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust, að vera alvarlegs eðlis. Mat á því hvort réttlætanlegt sé að leggja til afturköllun á þeim grundvelli er hins vegar í höndum bankaeftirlitsins hverju sinni. Almennt yrði veittur frestur til úrbóta en þó kynnu atvik að verða metin svo alvarlegs eðlis að rétt væri að krefjast tafarlausrar afturköllunar.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá 38. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 34. gr.


    Í 1. mgr. er mælt fyrir um málsmeðferð við afturköllun leyfa og gerð krafa um að hún sé rökstudd skriflega. Þykir eðlilegt að gera slíka kröfu sem stuðlar að vönduðum og faglegum vinnubrögðum. Þá verður að telja að sá sem fyrir afturköllun verður eigi rétt á rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og kann það að vera mikilvægt fyrir hann, til að mynda komi til dómsmáls vegna ágreinings um réttmæti afturköllunar. Ekki er síður mikilvægt fyrir almenning og verðbréfamarkaðinn í heild að fá vitneskju um afturköllun leyfa. Því er mælt fyrir um birtingu tilkynninga um afturköllun í Lögbirtingablaði og einnig opinbera auglýsingu í fjölmiðlum.
     Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og þarfnast ekki skýringa.

Um 35. gr.


    Ekki er fyrir hendi sérstök tilskipun innan Evrópubandalagsins um starfsemi fyrirtækja sem frumvarp þetta tekur til. Hins vegar er unnið að tilskipun um svonefnda „investment services“ sem þessi starfsemi mundi falla undir. Með hliðsjón af því og einnig meginreglu samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frelsi til að starfa innan svæðisins er ákvæði 1. mgr. sett. Önnur sjónarmið eiga hins vegar við um ríkisborgara eða fyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Að öðru leyti þarfnast ákvæði þessarar greinar ekki skýringa.

Um 36. gr.


     Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 37. gr.


    Í þessu ákvæði er það nýmæli að kostnaður við tilkynningar samkvæmt frumvarpinu greiðist af viðkomandi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki. Þykir eðlilegt að þessir aðilar beri þennan kostnað og má benda á að víða erlendis tíðkast að tiltekinn kostnaður við eftirlit af þessu tagi greiðist af þeim sem eftirlitið tekur til.

Um 38. gr.


     Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra fari með leyfisveitingar, afturköllun þeirra og setningu reglna um ýmis atriði. Víða erlendis hefur þróunin hins vegar verið sú að eftirlitsaðilum séu falin þessi verkefni, t.d. í dönskum lögum. Þykir heppilegt að viðskiptaráðherra hafi heimild til að fela bankaeftirlitinu verkefni af þessu tagi og fylgja þeirri þróun kjósi hann að gera svo. Með ákvæðinu er opnuð leið til þess án þess að til lagabreytingar þurfi að koma.

Um 39. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um XI. kafla.


     Hér er fjallað um viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins. Ákvæðin eru nokkuð breytt frá gildandi lögum. Almenn viðurlög eru hert og einnig eru sett sérstök viðurlög við brotum gegn ákvæðum VI. kafla um misnotkun trúnaðarupplýsinga.

Um 40. gr.


    Í 1. mgr. eru sett almenn viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins, önnur en gegn ákvæðum VI. kafla. Viðurlög eru hert frá gildandi lögum. Brot varða nú sektum eða fangelsi allt að einu ári í stað átta mánaða eins og nú er. Ástæða þessarar breytingar er fyrst og fremst sú að verðbréfaviðskipti hafa á undanförnum árum orðið sífellt umfangsmeiri hluti fjármagnsmarkaðar og samfara því hefur orðið ljóst að brot gegn lögum á því sviði eru til þess fallin að hafa alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir fjármagnsmarkaðinn í heild og ekki síður einstaklinga sem fyrir brotum verða. Þykir því nauðsynlegt að viðurlög séu með þeim hætti að þau fæli frá brotum og því eru þau hert. Er þetta í samræmi við þróun víða í nágrannalöndum. Þá er jafnframt bætt inn í ákvæði frumvarpsins fyrirvara um hugsanlega þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.
     Ákvæði 2. mgr. eru nýmæli. Með viðskiptum sem brjóta gegn ákvæðum VI. kafla um misnotkun trúnaðarupplýsinga er vegið að grundvallarforsendum eðlilegs og heilbrigðs verðbréfamarkaðar og því trausti sem nauðsyn er á að þar ríki. Séu þessi brot framin af aðilum sem starfa á verðbréfamarkaði sem formlegir leyfishafar eða á þeirra ábyrgð bregðast þeir því trausti og kröfum um heiðarleika sem eðlilegt er að til þeirra séu gerðar. Það er því talið eðlilegt að ströng viðurlög, sem geti haft varnaðaráhrif, séu við brotum af þessu tagi. Ströng ákvæði um viðurlög við slíkum brotum tíðkast víða í nágrannalöndum. Þá er einnig í 2. mgr. heimild samkvæmt dómi til eignaupptöku á beinum eða óbeinum hagnaði af þessum brotum. Óeðlilegt væri að aðili, sem brotið hefur gegn ákvæðum um meðferð trúnaðarupplýsinga, héldi ólögmætum ágóða af því.
     Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að gera upptækan beinan hagnað og einnig fjárhæð eða verðmæti sem svara til þess fjárhagslega tjóns sem viðkomandi tókst að forðast með broti.
     Ákvæði 3. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 41. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að gildistaka frumvarpsins er miðuð við gildistöku samnings um Evrópskt efnahagssvæði.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Í ákvæðinu er mælt fyrir um frest starfandi verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja
til að laga starfsemi sína að ákvæðum frumvarpsins. Almennt er fresturinn eitt ár en þó er ráðherra heimilt að veita verðbréfafyrirtækjum sex mánaða frest til viðbótar. Tímalengd frests leiðir af reglum Evrópubandalagsins.
     Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


SÉRÁLIT


Eiríks Guðnasonar um 17. gr. í tillögum vinnuhóps


að frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti.


    Undirritaður leggur til þá breytingu á tillögu vinnuhópsins að 3. mgr. 17. gr. falli niður.
     Framangreind tillaga er að því leyti frábrugðin tillögu vinnuhópsins að þeim sem efna til almenns útboðs verðbréfa er ekki gert skylt að fá bréfin skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Engu að síður er hér gert ráð fyrir að almennt útboð sé háð ákveðnum reglum sem stjórn Verðbréfaþings Íslands mundi setja. Með slíkum reglum væri stuðlað að vönduðum vinnubrögðum þegar almenningi eru boðin verðbréf, m.a. á þann hátt að útboðsgögn gefi glögga mynd af bréfunum sem um ræðir og aðstæðum útgefanda.
     Verði lögfest sú tillaga að bréf, sem boðin eru til sölu í almennu útboði, skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði, þ.e. Verðbréfaþinginu, má segja að valfrelsi það, sem útgefendur hafa nú, væri skert verulega. Slík skráningarkvöð er ekki fólgin í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heldur er þar þvert á móti gert ráð fyrir að unnt sé að gefa út bréf í almennu útboði án þess að þau séu tekin til opinberrar skráningar á verðbréfaþingi, sjá III. þátt tilskipunar 89/298/EBE.
     Það er vel hægt að fallast á það sjónarmið að æskilegt væri að sem flestir verðbréfaflokkar, sem boðnir eru almenningi til kaups, séu skráðir á opinberu verðbréfaþingi. En þróun í þá átt á að eiga sér stað ef og þegar aðilar á markaðnum sjá sér hag í því ekki með lögboði. Ef kaupendur verðbréfa leggja mikið upp úr opinberri skráningu vegna reglulegra upplýsinga um markaðsverð og um hag útgefanda sem hún tryggir þeim munu þeir einkum kaupa skráð bréf og útgefendur þá sækjast eftir skráningu.
     Frá sjónarhóli Verðbréfaþings er æskilegt að fá sem flesta verðbréfaflokka á skrá en þingið á ekki að þurfa að fá bréfin á silfurfati frá löggjafanum heldur er því hollt að þurfa að sýna fram á ágæti skráningar.
     Það er rétt sem kemur fram í greinargerð varðandi 17. gr. að skýrsla Enskilda um verðbréfamarkaðinn á Íslandi, sem birt var á sl. ári, fól í sér tillögu um skráningarskyldu allra verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði. Í viðræðum við sérfræðinga Enskilda sem sömdu skýrsluna kom hins vegar fram að þeir vissu ekki um neitt land þar sem slíkt væri boðið með lögum.



Fylgiskjal II.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti.


    Með frumvarpi þessu er ætlað að setja ítarlegri lög um verðbréfaviðskipti en áður var gert með lögum nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þau lög munu falla úr gildi um leið og frumvarp þetta verður að lögum en það mun öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Helsta breytingin frá fyrri lögum er að lög um verðbréfasjóði verða nú aðskilin frá lögum um verðbréfaviðskipti og er frumvarp þar að lútandi lagt fram um leið og þetta, svo og frumvarp um Verðbréfaþing Íslands.
    Ekki verður séð af frumvarpi þessu að til beins kostnaðar komi fyrir ríkissjóð. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands mun aðallega hafa það hlutverk að líta eftir framfylgd laga þessara. Stjórnsýsluhlutverk viðskiptaráðuneytis mun með tímanum aukast með umfangi verðbréfaviðskipta þótt ekki verði beinn kostnaðarauki þar af nú.